top of page

Það sem stundum gleymist að tala um eftir fæðingu

Eftirvæntingin eftir barninu og undirbúningurinn fyrir fæðinguna tekur stundum svo mikið rými í lífi okkar að fyrstu stundirnar eftir fæðingu koma oft mjög á óvart. Barnið fætt en slatti eftir af einhverju sem ekki endilega hefur verið talað um. Ekki misskilja, það er alltaf eitthvað sem kemur á óvart, það er ekki hægt að undirbúa sig svo vel að maður hætti að undrast. Þó eru nokkrir hlutir sem koma upp aftur og aftur, sem kannski er ekki mikið talað um fyrst eftir fæðingu.


Þegar barnið er fætt, fæðist fylgjan. Fylgjan kemur síðast og það er heitt og skrýtið að fæða fylgju, yfirleitt áreynslulaust en skrýtið.


Ljósmæður nudda legið eftir fæðingu, til að athuga hvort það taki sig ekki örugglega saman. Það er alveg agalega vont að láta nudda á sér legið eftir fæðingu. Þær nudda legið og athuga það reglulega. Þetta á líka við um eftir keisarafæðingu.


Oft þarf að sauma eftir fæðingu, það er talað um fyrstu, annars og þriðju stigs rifu. Það er oft sárt að láta sauma, þó vel sé búið að deyfa og getur tekið langan tíma. Sársaukinn er líka oft meira eins og sviði eða stingur og fátt sem getur undirbúið mann undir það að láta sauma á sér barmana með lítið barn í fanginu.


Sviðinn sem fylgir því stundum að pissa er eiginlega ólýsanlegur og það getur verið heilmikið mál að kúka eftir fæðingu.


Netanærbuxurnar sem konur fá fyrst eftir fæðingu halda vel en leyna engu.


Það getur verið erfitt að setjast upp og sitja strax eftir fæðinguna, slíkt tekur oft nokkra daga að jafna sig.


Maginn er mjúkur og laus strax eftir fæðingu og það getur verið skrýtið að ýta á hann strax á eftir. Fyrstu skrefin eftir fæðingu með tóman maga eru oft eftirminnileg.


Það getur tekið tíma að jafna sig og ná áttum eftir fæðingu og ná að njóta þess að vera með barninu sínu.



337 views0 comments

Recent Posts

See All

Einmana í móðurhlutverkinu

Það er ótrúlega algengt að konur og foreldrar upplifi sig einmana fyrstu mánuðina eftir að þær eignast barn og það kemur mörgum svo ótrúlega á óvart! Eðlilega kannski, flestir eru búnir að vera að und

bottom of page