top of page

Einmana í móðurhlutverkinu

Það er ótrúlega algengt að konur og foreldrar upplifi sig einmana fyrstu mánuðina eftir að þær eignast barn og það kemur mörgum svo ótrúlega á óvart! Eðlilega kannski, flestir eru búnir að vera að undirbúa sig undir dásamleg yndisleg heit og svo stingur nístandi einmanaleikinn mann og einföld endurtekning daga sem renna saman gera lífið tilbreytingarsnautt.


Þetta er ekki bara eðlilegt heldur mjög algengt í nútímasamfélagi. Óformleg könnun á Instagram (doula.is_ ) sýndi að af rúmlega 200 sem svöruðu sögðust 69% hafa upplifað sig einmana.


69 prósent er meira en 2/3

69 prósent er meirihlutinn

69 prósent segir okkur að af hverjum 10 nýbökuðum mæðrum/foreldrum eru eða voru 7 þeirra einmana.


Þetta er ótrúlega há tala og kannski áminning um að við þurfum þorp til að ala upp barn, ekki bara til að ala upp barnið heldur líka til að halda okkur félagsskap.


Mér finnst við þurfa að vanda okkur sem samfélag að vera til staðar fyrir nýja foreldra, en til staðar á þann hátt að nýir foreldrar upplifi virðingu og næði. Stundum held ég að samfélagið okkar hafi tekið ,,gefum foreldrum næði" of alvarlega og skilið foreldrana eftir eina af einskærri tillitsemi.


Eitthvað getur maður gert sjálfur og tekið til sín og ef þú ert í þessum aðstæðum er kannski reynandi að prófa eitthvað af þessum hugmyndum.


Það er forgangsatriði að fara út úr húsi amk daglega, með eða án krílis. Það er hægt að fara í göngutúr, setjast á kaffihús, bókasöfn eru æði og vonandi heyra í einhverjum vini eða ættingja. Öll samskipti gera daginn bærilegri.

Það getur líka verið gott að fara aðeins út án barnsins og ef maður treystir sér ekki langt að fara í stuttan göngutúr í hverfinu og hringja í vin- skárra en ekkert.


Það er hægt að sækja afþreyingu eins og mömmumorgna í kirkjum og sem betur fer eru að koma upp fleiri úrræði þar sem foreldrar geta komið með börnin sín gjaldfrjálst. Svo eru námskeið sem hægt er að fara á eftir áhugamálum.


Já takk er besta svarið ef einhver býður hjálp og best að vera bara nokkuð skýr. ,,viltu koma á morgun og setja í vél, halda á kríli meðan ég fer í sturtu og spjalla yfir kaffibolla?"


Hlustaður á podköst um foreldrahlutverkið og vertu virk í nethópum. Kauptu bækur í samræmi við áhugamálin tengd uppeldinu og ef þú ert með maka, er mikilvægt að þið fræðist bæði.


Ekki hika við að hafa samband við sérfræðing t.d. fjölskyldufræðing eða sálfræðing ef vanlíðanin er mikil.


Myndir þú bæta einhverju við? Mér þætti vænt um að heyra frá þér og ykkur ef þið lumið á góðri hugmynd <3

102 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page