Fæðingarfylgd
Douluþjónustan okkar er fagleg, hlý og persónuleg

Hvað er doula
Doula er stuðningskona nýrrar fjölskyldu fyrir í og eftir fæðingu og styður þarfir hennar og óskir í tengslum við hana. Doula aðstoðar verðandi fjölskyldu við að undirbúa sig fyrir fæðingu, líkamlega og andlega á þeirra forsendum og fylgir þeim í gegnum ferlið í heild. Doula veitir samfellda þjónustu og getur því stutt parið tilfinningalega og aðstoðað þau við að ná fram og orða óskir sínar, ásamt því að veita fræðslu eftir þörfum. Doula fylgir foreldrum í gegnum allt fæðingarferlið og er með þeim allan tímann á þeirra forsendum. Sama hvort um er að ræða spítalafæðingu eða heimafæðingu, fæðingu með eða án deyfilyfja, fæðingu eða keisara styrkir doula konur og maka þeirra. Samstarf með doulu er náið og persónulegt og því byggir starf doulu alltaf á trúnaði og trausti. Orðið doula er grískt og átti við þjón konu, jafnvel þræl. Nýrri merking er stuðningsaðili fæðandi konu. Doula gerir allt sem í sínu valdi stendur til þess að styðja konur / foreldra til þess að fæðingarreynslan verði sem ánægjulegust.
Doula er stuðningskona og ber aldrei klíníska ábyrgð. Hennar hlutverk er að vera til staðar og hlúa að foreldrunum.
Doula kemur aldrei í stað ljósmóður eða læknis og tekur engar læknisfræðilegar ákvarðanir.
Ávinningur af douluþjónustu
Ávinningurinn af því að hafa doulu sér við hlið er margvíslegur. Hann felst ekki síst í því að foreldrar þekkja douluna, á milli þeirra ríkir traust og trúnaður og doulan fylgir parinu í gegnum alla fæðinguna, óháð tímalengd og staðsetningu. Stuðningur doulu er samfelldur og alltaf á jafningjagrundvelli. Við þekkjum væntingar foreldra og vinnum fyrir þá og leitumst alltaf við að uppfylla óskir þeirra. Ótal athuganir hafa verið gerðar til að athuga ávinninginn af því að hafa doulu með sér í fæðingarferlinu meðal annars í Belgíu, Finnlandi, Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Frakklandi, Svíþjóð og Guatemala. Allar athuganir sýna að konur og verðandi fjölskylda græðir á því að hafa doulu sér við hlið. Ávinningurinn er meðal annars:
-
jákvæðari upplifun af fæðingunni
-
styttra fæðingarferli
-
minnkuð þörf fyrir deyfilyf
-
minni líkur á keisarafæðingu
-
minni líkur á fæðingarþunglyndi
-
makar eru öruggari með hlutverk sitt
-
betri samskipti við maka eftir að barnið er komið heim
-
betri tengslamyndun við barn
-
meiri líkur á að brjóstagjöf gangi upp
(heimild: The Doula Book: how a Trained Labor Companion Can Help You Have a Shorter, Easier, and Healthier Birth eftir Marshall H Klaus, M.D., John H Kennell, Phyllis H Klaus og cochrane database)

Í hverju felst þjónustan?
Doula starfar fyrir foreldra og styður þá í gegnum tíma sem gleymast seint. Þarfir, óskir og væntingar eru ólíkar frá konu til konu og fjölskyldu til fjölskyldu. Þjónusta doulu getur verið samfelld frá upphafi meðgöngu þar til eftir fæðingu barnsins eða einn hittingur þar sem unnið er með ákveðna þætti. Stuðningur okkar felur meðal annars í sér:
-
aðstoð við að vinna úr fyrri fæðingarreynslu
-
aðstoð við gerð fæðingaráætlunar
-
aðgangi að bókum um meðgöngu, fæðingu og brjóstagjöf
-
fæðingarfræðslu
-
fótanuddi
-
öndun og öndunaræfingum
-
slökunaræfingum
-
yfirferð yfir góðar stöður og stellingar
-
ótakmörkuðum síma- og vefpóstsaðgangi
-
skuldbindingu um að vera í nágrenninu tveimur vikum fyrir settan dag þar til barnið er komið í heiminn.
-
samfelldri viðveru í fæðingu
-
Myndatöku í fæðingu ef óskað er
-
aðstoð með brjóstagjöf ef óskað er
-
stuðningi eftir fæðingu
Fyrsta skrefið er að hafa samband. Við bjóðum ykkur að spjalla við okkur og kynnast okkur betur. Fyrsti hittingur er án allra kvaða, hann er notaður til þess að kynnast, spjalla og sjá hvort áhugi er fyrir nánara samstarfi.
