top of page

Óróleg ungbörn

Stundum þegar börn eru nokkurra daga gömul verða þau óróleg og ómöguleg, þau hafa verið að þyngjast vel, vær og róleg en ca 7-10 daga gömul eru þó ónóg sjálfum sér að kvöldi til, vilja drekka mikið en samt ekki. Vilja vera brjósti og slíta sig af, kvarta, emja og jafnvel gráta.


Það reyndar skiptir ekki máli hvaða mjólk barnið er að drekka, lítil börn taka reglulega tímabil þar sem þau eru örlítið önug, oft kemur það í bylgjum og í kringum vaxtakippi. Búast má við vaxtakippum 1,2,3 vikna og svo 6,9, 12,16 vikna!


Eðlilega verður maður örlítið bugaður, fyrstu dagarnir eru svo skrýtnir og fæstir hafa sjálfir sofið nóg en þessi hegðun er alveg eðlileg og er í raun fyrsti vaxtarkippurinn. Litla krílið er að auka mjólkurframleiðsluna og nýju foreldrarnir eru enn að læra á litla krílið sitt.

Best er að bjóða barninu að drekka þegar það vill og oft, skiptast á brjósti reglulega og reyna að halda ró sinni, minna sig á að þetta er eðlileg hegðun lítils barns.

Það má ekki gleyma að hormónastarfsemin okkar bregst við grátandi barni, líffræðilega erum við hönnuð til að upplifa vanlíðan þegar barnið okkar grætur.


Þegar krílin hafa drukkið vel er hægt að setja hendur í miðlínu og rugga þeim eða ganga aðeins um með þau, það getur verið mjög róandi. Sumum börnum finnst gott að hlusta á ssss hljóð. Passa að drekka nægan vökva og hugsa um sig eins og hægt er og þegar foreldrarnir eru tveir að passa að skiptast á.


En hvað getur maður gert þegar barnið er órólegt og maður hefur fullvissað sig um að það er hraust að öðru leiti? Tékklistinn er einhvern veginn svona:


Byrja á því að

- gefa því að drekka að vild

- láta kríli ropa

- skipta á bleiu

- sjá hvort því líði vel í fötunum

- athuga hvort því sé of heitt/ of kalt

- útiloka veikindi


Nærveran skiptir miklu máli

- haltu á barninu blíðlega

getur verið gott að draga hendur upp að miðlínu til eða setja það í ,,pabbatak" þannig að magi barns liggi á handlegg.

- settu það í sjal eða burðarpoka og hafðu þétt við þig

- strjúktu blíðlega upp bakið á litla krílinu


Taktur og endurtekning skila miklu, rugg, ganga um. Stundum er gott að gefa krílinu að drekka meðan maður er á hreyfingu.


Dragðu úr áreiti

- hafðu lágstemmd ljós og dragðu úr hávaða

- settu í gang ,,white noise"


Skiptu um umhverfi

- færðu þig milli herbergja ef við á

- prófaðu að fara út úr húsinu ef við á


Möntrur fyrir þig

- þetta líður hjá

- þú og barn þitt eruð örugg

- barninu líður illa og þarf þína hjálp


Ekki gleyma að börn vilja láta uppfæra trixin sem eru notuð. Oft virkar eitthvað í nokkra daga og svo þarf að finna nýja tækni.


Ekki vera smeyk við að hringja í vin eða ættingja og fá aðstoð og leiðbeiningar hvenær sem er.




487 views0 comments

Recent Posts

See All

Einmana í móðurhlutverkinu

Það er ótrúlega algengt að konur og foreldrar upplifi sig einmana fyrstu mánuðina eftir að þær eignast barn og það kemur mörgum svo ótrúlega á óvart! Eðlilega kannski, flestir eru búnir að vera að und

bottom of page