Ég man þegar ég gekk með elstu stelpuna mína hvað það var margt sem vakt með mér ugg. Hugleiðingarnar voru allt frá því að vera léttvægar yfir í áhyggjur af stórslysi.
Svo í gegnum árin, í gegnum doulu-starfið og líka bara í gegnum kaffiboðsspjall er alveg ljóst að ég var ekkert ein. Það er margt sem við hræðumst þegar kemur að barnsfæðingu og kannski skiljanlega. Fæðingar eru allskonar, oft erfiðar og átakanlegar (og stundum ósköp ljúfar og léttar) og það eru margar sögur þarna úti sem eru hálfsagðar sem hjálpa lítið í að kveða niður fæðingarótta.
Við deilum oft sama ótta, og það eru nokkur atriði sem koma fyrir aftur og aftur sem leitar á huga okkar og vekur með okkur ugg. Ég leitaði á náðir Facebook-kvenna og spurði þær hvað þær óttuðust helst og það lá ekki á svörum og hugsun mín var staðfest, við erum flestar að takast á við það sama og það er gott að finna styrk í því. Hér eru fimm algengustu atriðin sem vöktu ótta og smá hugleiðing með því.
Ótti við að rifna.
Langflestar konur nefndu að þær óttuðust að rifna í fæðingu. Skiljanlega, tölfræðin segir okkur að um 80% kvenna rifni eitthvað í fæðingu en sem betur fer er ekki algengt að konur rifni mikið og illa eða í innan við 4% tilfella (auðvitað vill enginn tilheyra 4%!).
Er eitthvað hægt að gera í þessu?
Margir segja að spangarnudd á meðgöngu hjálpi til, geri spöngina mýkri og svo kynnast konur kynfærum sínum betur. Það er talið auka á rifur að vera á hækjum sér, með mænurótardeyfingu og það er hærri tíðni áverka eftir áhaldafæðingar. Stellingar sem eru betri fyrir spöngina eru taldar vera þegar kona er á fjórum fótum, liggjandi á hliðinni eða standandi. Vatnsfæðingar hjálpa líka til við að halda spönginni heilli.
Það er talið líklegra að konur rifni þegar þær liggja á bakinu (auk þess sem það minnkar rýmið í mjaðmagrindinni) en þannig er best fyrir ljósmóður að styðja við spöng kvenna og árið 2011 voru teknar upp vinnuleiðbeiningar um að styðja átti við spöng allra kvenna í fæðingum og alvarlegar rifur hafa minnkað eftir að þau vinnubrögð voru tekin upp.
2.) Ótti við að kúka í fæðingunni
Við erum vön að kúka í friði, í einrúmi og viljum helst ekki að neinn verði var við það. Kúkafíla er líka ekkert sem konur vilja flagga. Svo kemur að fæðingunni og við erum með makanum okkar og oft ókunnugu heilbrigðisstarfsfólki og eigum bara að láta eins og þetta sé ekkert mál. Að öllum sé bara sama. En þannig er það! Kúkur er bara hluti af fæðingu og í raun ekkert sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir hann. Hans hlutverk í fæðingum er þó stórlega blásið upp. Langoftast hefur líkaminn sett af stað smá hreinsunarferli fyrir fæðinguna til að búa til pláss og yfirleitt er ekkert mál að fara bara á klósettið í fæðingunni ef manni er mál. Kúkatilfinningin kemur oft yfir konur þegar þrýstingurinn frá barninu verður meiri og tilfinningin sem við þekkjum er að við þurfum að kúka en í raun þurfum við að fæða barn (við notum sömu vöðva til að koma barninu út og jú ef það er kúkur kemur hann með barninu). Ljósmæður eru svo ótrúlega snöggar að fjarlæga allt sem kemur, svo maður verður eiginlega ekkert var við það og enginn í kringum mann og passa upp á reisn manns. Það verður engin kúkalykt því hún drekkist í fæðingarlyktinni góðu. Ef þetta hefur veruleg áhrif á mann verður maður að hafa kjarkinn til að tala um það við maka og t.d. biðja hann bara um að horfa framan í mann eða finna aðrar leiðir til að geta verið öruggur um að fæða með öllu sem því fylgir. Margir segja að vatnsfæðing sé þægileg í þessu tillliti.
3.) Spangarskurður
Tilhugsunin um að vera klippt er áhyggjuefni margra. Skiljanlega, það er enginn æstur í að láta klippa á sér spöngina. Spangarskurður var mikið algengari hér áður fyrr og rútína að kona væri klippt án þess að vera spurð. Spangarskurður á nú til dags að vera gerður í fyrirbyggjandi tilgangi, t.d. þegar spöngin er svo stíf að hún gefur ekki eftir, flýta þarf fæðingu eða stytta rembingstíma, í axlarklemmu og svo til að fyrirbyggja alvarlega spangaráverka. Tölfræðin segir okkur að árið 2013 var tíðni spangarskurða rúm 12% í fæðingum á landsspítalanum og hefur hækkað úr 8% frá 2011. Spangarskurður hefur hækkað í samræmi við nýju vinnubrögðin m. stuðning við spöng. Sú var amk raunin í Noregi að spangarskurðum fjölgaði um 7 % eftir að sömu vinnubrögð voru tekin upp. Er eitthvað hægt að gera til að koma í veg fyrir að vera klipptur? Stundum en stundum ekki, sömu ráðleggingar fyrir leiðir til að koma í veg fyrir rifur á við hér og ef þú ert mikið með hugann við málefnið er gott að ræða það þegar komið er í fæðinguna og vera viss um að þú sért með í allri ákvarðanatöku sem tekin er varðandi líkama þinn.
4.) Ótti við inngrip á við gangsetningu eða áhaldafæðingu.
Hoppandi beint í tölfræðina þá var tíðni gagnsetninga á LSH árið 2013 um 26% og áhaldafæðingar tæp 10%. Ótti við gangsetningu eða önnur inngrip er mjög skiljanlegur og getur verið sprottinn af mörgum ástæðum og ein þeirra er eflaust að völdin eru tekin af manni. Stundum spyrja konur sig hvort að inngripin hafi verið nauðsynleg og efast um það og stundum er gripið inn í án sjáanlegrar ástæðu. En hin hliðin á peningnum er að inngrip eru oft það besta sem er til í heiminum og við eigum þeim mikið að þakka. Fæðingarútkoma á Íslandi tölfræðilega er t.d. alveg til fyrirmyndar og ein sú besta í heimi. Svo stundum má maður vera ósköp þakklátur fyrir inngrip. Helsta vopnið er að vera upplýstur, með á nótunum og þora að spyrja spurninga svo maður sé þátttakandi í ákvörðunum sem teknar eru. Mikilvægt að spyrja og fá svör sem maður skilur. Penny Simkin, konan sem ég lít æ svo mikið upp til, gerði lítil spjöld með spurningum fyrir fólk svo það gæti betur áttað sig á stöðunni í fæðingum. Hún tekur líka fram að stundum er ekki hægt að spyrja allra þessara spurninga og þá er auðvitað líklegt að málið sé brýnt eða um neyðartilfelli að ræða. En lauslega þýddar koma þær hér:
Hvert er vandamálið? Af hverju er það vandamál og hversu alvarlegt er það? Hversu mikilvægt er að það verði meðhöndlað strax?
Viltu lýsa heildarferlinu fyrir mér ítarlega, hversu líklegt er að inngripið hafi jákvæð/ neikvæð áhrif og hverjar eru líkurnar á að málið verði leyst eftir þetta?
Ef þetta heppnast, hvað þá?
Kostir/ gallar?
Er eitthvað annað í stöðunni? (eins og að bíða og gera eitthvað)
5.) Ótti við keisara
Keisaratíðni á Íslandi hefur verið í kringum 14-15% undanfarin ár, sem er mjög lág tíðni keisara miðað við mörg önnur lönd og er á pari við það sem Alþjóðaheilbrigisstofnunin (WHO) mælir með. Tölfræðin segir þó að það eru 1-2 konur af hverjum 10 sem fara í keisara svo óttinn er alveg raunverulegur. Það á í raun það sama við um keisara og önnur inngrip. Keisarar eru líklega á pari við aðrar stórkostlegar uppfinningar eins og pensilin og bólusetningar og hafa gefið okkur hér á Íslandi þá vissu að við getum gengið inn í fæðingu og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að lifa hana ekki af. Besta leiðin til að minnka líkurnar á að fara í keisara er að vera vel undirbúinn og með góðan stuðning með sér í fæðinguna.
Að lokum
Ótti er hluti af fæðingu held ég, við hljótum að leiða hugann að flestum þeim aðstæðum sem gætu komið upp þegar við erum að fara út í eitthvað sem við höfum aldrei gert og getum svolítið illa undirbúið okkur fyrir. Það er gott að skoða óttann sinn, horfast í augu við hann og sjá hvað maður geti gert til að sigrast á honum. Hella svo yfir sig slatta af æðruleysi og taka því sem kemur.
Samfelldur stuðningur við parið, það að hafa manneskju með sér í fæðingarferlið sem maður þekkir, treystir og þekkir mann og fæðingarferlið gerir líka ótrúlega mikið fyrir mann og minnkar líkur á inngripum og sefar óttann. Það að hafa einhvern með sér í fæðingu sem maður getur treyst er ekki töfralausn við ótta en gerir fæðingarminninguna betri og það er algerlega þess virði.
Comentários