top of page

Svefn barna fyrstu mánuðinaBörn fæðast með óþroskaðan svefn- og vökuhrynjanda og það tekur nokkurn tíma að móta hann. Svefnhrynjandi er hormónastýrt ferli sem ræður því hvenær við vöknu og sofnum.

Svefnhrynjandi barna byrjar að myndast við 6-9 vikna aldur en er yfirleitt ekki fullmótaður fyrr en um 12 vikna. FRam að þeim tíma gera börn ekki endilega greinarmun á nóttu eða degi.


Þau sofa þegar þau eru þreytt

Svefn og vaka stýrast einnig af svengd, börn vakna þegar þau eru svöng og sofna þegar þau eru södd. Því er erfitt að reikna út svefnmynstur barna fyrir þann tíma því breytingarnar eru örar.


Flest nýfædd börn sofa í nokkuð jöfnum dúrum allan sólarhringinn sem svo breytist eftir því sem þau eldast og þroskast. Fyrst um sinn eru þetta tveggja til þriggja tíma lúrar sem smá lengjast og algengt er að 4 mánaða gömul börn séu farin að sofa 3-4 tíma samfellt á nóttunni ( en kannski í heildina 9-10 tíma). Þessi tími lengist frekar hratt og mörg 4 mánaða börn hafa getuna til að sofa í lengri lúr, 5- 6 tímum, yfir nóttina. Meðan ungbörn eru að þyngjast nóg, eru heilbrigð og venjuleg þarf ekki að hafa áhyggjur af of miklum svefni. Fyrstu vikurnar þarf þó stundum að fylgjast með því að börnin séu að nærast vel.

Flest börn um sex mánaða eru farin að sofa um 10-12 tíma í einu ferli en það getur alveg eðlilegt að börn á þessum aldri vakni enn 2-3 á nóttunni, mörg eru enn svöng á 4 tíma fresti. Um 10-12 mánaða aldur eru mörg börn komin í ákveðna svefnreglu og farin að sofna og vakna á svipuðum tíma. Það er erfitt að segja algild viðmið en mörg 6 mánaða gömul börn vakna enn 1-2 tvisvar á nóttunni. Mörg eins árs gömul börn vakna einu sinni á nóttu og nokkuð algengt er að börn vakni amk einu sinni til c.a. tveggja ára.

Svefnþörf er auðvitað mismikil en flestir eru innan viðmiða sem sett hafa verið fram. Með ung börn hefur maður auga með því að þau sofi nóg frekar en þau sofi of mikið (að því gefnu að þau séu að þyngjast og dafna). Börn undir þriggja mánaða ættu að ná 16-18 klukkustunda svefni á sólarhring, 3- 6 mánaða 15- 17 tíma á sólarhring og 6 mánaða börn um 14 tíma á sólarhring.

Svefnhringur barna er oft í kringum 40-45 mínútur og er svefninum skipt í fimm stig eftir dýpt svefnsins. Dýpsti svefninn er ríkjandi fyrri hluta nætur. Fyrstu fjögur stig svefnsins eru non rem svefn og síðasta stigið er draumsvefn eða rem (rapid eye movement). Ferlið er yfirleitt á þá leið að fyrstu tíu mínútur svefnhringsins er barnið að sofna og sefur laust. 10-20 mínútur inn í svefnhringinn er barnið sofnað og sefur laust. Í 20-30 mínútu er djúpur svefn. Fjórði hlutinn er 30-40 mínútur þegar barnið er að koma úr djúpsvefninum og síðustu mínúturnar sefur barnið létt, augun eru oft mikið á hreyfingu og auðvelt að vekja barn.

Það er í raun eðlilegt að börn vakni á nóttunni, það gera fullorðnir líka. Munurinn er bara sá að börn vekja foreldra sína þegar þau vakna. Hinir fullorðnu færa sængina, snúa sér og halda áfram að sofa og muna jafnvel varla eftir því að hafa vaknað. Börn eru hinsvegar ekki alltaf fær um að laga sig sjálf eða segja frá því sem angrar þau og þurfa þess vegna aðstoð við að sofna aftur.

Margir þættir spila inn í að börn vakna á nóttunni sem hægt er að skipta upp í ákveðna flokka.

· Algengast er líkamleg vanlíðan eða veikindi. Þættir eins og tanntaka, eynabólga, stíflur í nefi, bakflæði, asmi og fleira í þeim dúr.

· Þroskatengdir þættir eru líka algengir, barnið hefur lært nýja færni sem það yfirfærir á svefntímann, algengt er að 4 mánaða börn fari að vakna út af þroskakipp sem og 7 mánaða börn og 10 mánaða gömul börn. Vaknanir vegna þroska ganga yfirleitt hratt yfir.

· Breytingar á fjölskyldulífinu eða þættir úr umhverfi hafa oft áhrif og stundum gleymist að taka þá með í myndina. Breytingar á samveru t.d. foreldri fer að vinna, barnið eignast systkini, flutningar, skilnaður eða önnur streita hefur allt áhrif. Börn sem hafa upplifað erfiðar aðstæður finna oft fyrir því í svefni sínum.

· Skapgerð barnsins. Ekki eru öll börn eins og sum eru auðtruflaðri en önnur.

Að bregðast við barni

Það er mæðrum og foreldrum eðlislægt frá náttúrunnar hendi að bregðast við gráti barna sinna. Grátur er fyrsta tungumál barnsins og beiðni um aðstoð og umönnun. Foreldrar og sérstaklega mæður finna oft sterk líkamleg viðbrögð þegar börn þeirra gráta. Konur sem hafa börn sín á brjósti finna t.d. oft fyrir aukinni mjólkurmyndun þegar barnið grætur og jafnvel losunarviðbragði.

Með því að bregðast við gráti barns af yfirvegun kennum við barni að þörfum þess er sinnt og komum til skila að barn geti tjáð vanlíðan og að vanlíðaninni er mætt. Barn þarf á því að halda að foreldrar geti brugðist við þörfum þess og túlkað óskir þess barninu í hag. Með því að bregðast við barni byggist hægt og rólega upp gagnkvæmt traust milli aðila. Gera má líka ráð fyrir því að barnið gráti minna eftir því sem það eldist og þroskast.

Grátur er ekki neikvæð hegðun sem þarf að slökkva á. Grátur treystir samband barns og umönnunaraðila og minnkar streitu. Eftir því sem barnið eldist og þroskast minnkar gráturinn og tjáningin breytist.

Þegar barn grætur er líka mikilvægt að bregðast við því sjálfur af yfirvegun. Flest börn hafa ákveðna getu til að ná


Að skapa góðar svefnvenjur fyrir barn

Fyrst er að huga að því að skapa fyrirsjáanlegan ryþma. Haga hlutunum þannig að þeim fylgi ákveðinn taktur. T.d. svefn, leikur, matur, svefn. Oftast hentar betur að horfa í barnið og merki sem það sendir frá sér frekar en að ætla að fylgja klukkunni stíft en klukkan getur verið góð til hliðsjónar.

Hjálpa börnum að gera greinarmun á nóttu og degi. Þegar börn sofa í birtu á daginn og myrkri á nóttunni sofa þau betur og melatónin framleiðslan er í meira jafnvægi. Þegar barni er sinnt á nóttunni er því frekar rökkvað en þegar því er sinnt á daginn er meiri birta góð.

Hluti af góðri svefnrútínu er að hafa náttstaðinn bara sem náttstað en ekki líka leikherbergi.

899 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page