top of page
Writer's pictureSoffía Bæringsdóttir

Heimafæðing Daggar

Heimafæðing, dripp og keisari Ég vaknaði klukkan þrjú um nóttina sunnudaginn 8. apríl. Þegar ég steig fram úr rúminu hóstaði ég og þá skyndilega streymdi heitt vatnið niður fótleggina. Það var loksins komið að þessu. Ég var komin 41 viku og 5 daga framyfir settan dag með mitt fyrsta barn og var farin að þrá hríðar meira en nokkuð annað í lífinu. Ég var búin að vera með einhverja smá verki, síðustu vikurnar, og margoft haldið að nú væri fæðingin að fara af stað en svo var ekki. Daginn áður hafði ég farið að ráði minna yndislegu heimaljósmæðra og tekið laxerolíu til að koma mér af stað. Hvort sem það var laxerolían, nálastungurnar eða öll hin trixin í bókinni sem ég hafði prófað þá var fæðingarvinnan allavega hafin. Ég kallaði í Daniel, manninn minn, og sagði honum að nú væri vatnið að fara á meðan að það hélt áfram að leka niður leggina. Hann var rólegur og ég sagði honum að ég ætlaði aftur upp í rúm og reyna að ná eins mikilli hvíld og ég gæti áður en fjörið byrjaði fyrir alvöru. Hálftíma eftir að vatnið fór byrjuðu vægar hríðar og ég hringdi í ljósmóðurina og lét hana vita af stöðu mála. Ég sms-aði líka doulunni minni svo að hún væri með á nótunum og fór svo í háttinn.

Ég hafði verið í meðgöngujóga hjá Auði í 5 mánuði af meðgöngunni, lesið ótal bóka, var með doulu og tvær heimaljósur. Jógað fyrir mér var eins og að mæta í meðgöngumessu. Heilög stund með ófædda barninu mínu þar sem ég hlustaði á uppljómandi fróðleik frá Auði sem mun endast mér sem veganesti það sem eftir er.

Ég var s.s. vel undirbúin, búin að gera allt sem þurfti að gera og var farin að bíða eftir litlu stúlkunni okkar. Mér fannst stundum eins og að hún myndi aldrei fæðast, biðin var svo löng. Ég er þakklát núna fyrir þessa bið því að framundan var mikil vinna og það hjálpaði mér, ekki síst andlega, að hafa fengið góðan tíma til að undirbúa mig undir verkefnið.

Uppúr hádegi kom doulan mín til mín. Ég er svo heppin að hún er líka æskuvinkona mín svo að við vorum svakalega spenntar fyrir að upplifa þetta saman. Hún snerist í kringum mig og við ákváðum að baka köku. Við gátum spjallað en reglulega þurfti ég að fara frá og gefa frá mér hljóð og hreyfa mig þegar að hríðarnar byrjuðu. Mér fannst gott að gefa frá mér hljóð eins og aaaaa eða einhverskonar útfærslur af haf önduninni. Mér fannst hljóðin hjálpa til við að hægja á önduninni og fá mig til að einblína á eitthvað annað en hríðarnar.

Daniel og Soffía doulan mín, fylltu svo laugina um 5 leitið og ég hringdi í ljósurnar og bað þær um að koma.

Þegar að þær komu var ég í miðri hríð en náði svo að heilsa þeim. Eftir það tók við erfiðasta áskorunin. Hríðarnar urðu mjög kröftugar og ég var með mikla bakhríðar. Í hverri hríð reis ég á fjórar fætur upp úr lauginni, hélt í hendina á doulunni minni og Daniel nuddaði á mér neðra bakið. Ljósurnar sátu og fylgdust með að allt færi vel fram. Mér fannst við svo gott teymi og við mæðgur í svo góðum höndum. Ég náði að slaka vel inn á milli hríða, m.a.s. dotta smá. Ég fékk kefli hjá ljósunum, svipað og tiger boltarnir, til að kreista í hríðunum. Ég var mjög hrifin af þessu kefli því ég gat dúndrað bólstruðum endanum á því í þriðja augað þegar að hríðarnar voru á hámarki. Daginn eftir var ég dáldið aum í þriðja auganu, það verður að viðurkennast.


Annað sem ég nýtti mér mikið úr jógatímunum var eitt orð úr einni fæðingarsögunni, það var orðið “já”. Þegar að hríðarnar hófust byrjaði ég oft með að segja “Á” en ákvað svo að breyta þessu neikvæð “Á” yfir í “Já” og entók já-ið í sífellu. Ég trui því að já-ið hafa gefið mér orku og vilja til að halda áfram og klára verkefnið. Annað sem ég hugsaði allan tíman var hversu stutt það væri þangað til ég sæi barnið og hvað sólahringur í hríðum væri lítill tími miðað við næstum 10 mánaða meðgöngu. Ég vissi að fljótt tæki þetta enda. Ég einbeitti mér líka að hverri hríð fyrir sig og hugsaði lítið um hvað kæmi næst, “hver hríð færir mig nær barninu” eins og ég hafði svo oft heyrt í jóganu. Klukkan 10 um kvöldið var útvíkunin búin og hafði gengið mjög vel en ég var ekki enn komin með þrýstiþörf. Ljósurnar spurðu hvort þær ættu ekki að skoða mig og athuga hvernig hausinn væri skorðaður. Þær fundu strax að hausinn var skakkur. Við prófuðum nokkrar æfingar sem að geta hjálpað til við að leiðrétta stöðu barnsins. Ein æfingin var þróuð af Penny simkin, einni virtustu doulu bandaríkjanna. Ég setti annan fótinn upp á stól og stóð í hinn og vaggaði mér svo í gegnum hríðarnar með hjálp ljósmóðurinnar. Mér fannst þetta minnka þrýstinginn og þ.a.l. sársaukann í hríðunum. Næst prófaði ég að fara á fjórar fætur og ýta. Doulan mín tók svo rebozo sjalið sitt og þær hristu bumbuna eilítið til að athuga hvort að barnið myndi leiðrétta stöðuna sína. Ekkert virtist virka og það voru liðnir tveir klukkutímar. Ég sá að ljósurnar voru farnar að tala sín á milli. Þær komu svo til mín og sögðu mér að þær væru búnar að reyna allt og að þær sæju engar breytingar. Þær sögðu mér að ég væri búin að standa mig ótrúlega vel og að þær vissu að ég myndi halda áfram að reyna í alla nótt. Þær ráðlögðu mér hinsvegar að fara upp á spítala og fá drip og mænudeyfingu og athuga hvort að hríðarnar yrðu þannig kröftugri. Mænudeyfingin gæti hjálpað til við að slaka á grindinni. Ég treysti þeim vel og samþykkti að fara á spítalann. Ég hugsaði með mér að það væri ekki séns að ég færi í keisara, ég ætlaði að klára þetta á spítalanum. Ég ætlaði upphaflega að eiga algjörlega lyfjalausa fæðingu en ég viðurkenni að á þessum tímapunkti fannst mér mænustunga ekkert svo agaleg hugmynd.

Í öllu þessu ferli hafði ég aldrei áhyggjur af barninu, ég vissi að þetta var hraust og stór stelpa enda hafði hún verið með góðan hjartslátt alla fæðinguna. Mér fannst líka eins og að hún væri að spyrna og vinna með mér í hverri hríð.

Ég hafði aldrei ætlað mér á spítalann og var ekki með neitt tilbúið í slíka ferð. Daniel og Soffía, hlupu um allt hús að taka til föt og barnaföt á meðan að ég dílaði við hríðarnar upp í rúmi. Við keyrðum svo upp á spítalann, það var fljótlegra og minna stress en sjúkrabíll fannst mér.

Þegar við komum upp á spítala tók á móti okkur ljósmóðir og deildarlæknir, báðar konur. Ég lagðist á bekkinn og heimaljósurnar sögðu þeim hvernig staðan væri. Samt sem áður þurfti ljósmóðirinn, deildarlæknirinn og skurðlæknirinn á vakt að skoða mig, án þess að spyrja og í miðjum hríðum. Heimaljósurnar höfðu örsjaldan skoðað mig í öllu ferlinu og alltaf viðrað það við mig áður. Manninum mínum fannst þetta fullmikið og mér líka, sérstaklega þegar við forum að ræða þetta eftirá. Ég fékk svo mænudeyfinguna og dripið sett af stað. Hríðarnar voru aldrei langar en það var styttra á milli þeirra. Nánast allan tíman sem ég var á spítalanum var deildarlæknirinn með puttana í klofinu á mér og skipaði mér að ýta um leið og hríðarnar byrjuðu. Deyfingin virtist ekki virka og mér fannst erfitt að slaka á í þessari stöðu. Þær reyndu að setja mig á fjórar fætur, láta mig ýta löppunum aftur. Ekkert gekk og dripið var sett í botn. Sem betur fer gat ég gripið í gas af og til en hætti því þó, því ég hélt að ég gæti þá ekki ýtt eins kröftuglega. Ég fékk svo þvaglegg í miðri hríð sem var ansi óþægilegt,en átti að minnka þrýstinginn á barninu. Þetta var orðiðn allt önnur fæðing en heimafæðingin sem ég hafði hugsað mér. Ég var komin á bekk undir neonljósum, föst í alls konar snúrur og túbur. Heimaljósurnar voru farnar en maðurinn minn og Soffía doulan mín voru með mér. Spítalaljósan hafði sett mér tvo klukkutíma í reyna að ýta barninu út. Skurðlæknirinn á vakt hafði komið inn og sagt að ef að ég væri ekki dugleg að ýta þá þyrftu þau að ná í hana. Hún reyndi að segja þetta góðlátlega en auðvitað var þetta hótun.

Sirka 10 minútum áður en að tíminn sem að ljósan hafði sett mér var búinn sagði ég “ ég finn að barnið bifast ekki, get ég fengið keisara” mér fannst mikilvægt að ég tæki þessa ákvörðun. Ég fann að ég var búin að gera mitt besta og nú var nóg komið. M.a.s. doulan mín, sem er mikill talsmaður náttúrulegra fæðinga, fannst fyrir löngu nóg komið. Það tók nokkrar mínútur að græja skurðstofuna en ég var með hríðar allan tímann. Deyfingarlæknirinn kom vandræðalegur til mínn inn á skurðarborðinu og sagði mér að mænudeyfingin hafi aldrei virkað. Hann hafði aldrei lent í þessu áður, það fór blóð ínn í túbuna og vökvinn komst þ.a.l. ekki sína leið.


Nú var komið að síðasta áfanganum. Ég kvaddi douluna mina, sem að sagðist aldrei hafa séð annan eins dugnað í fæðingu. Ég hafði aldrei gefist upp né misst stjórn á mér og var alltaf tilbúin að reyna og halda áfram. Mér fannst hughreystandi að heyra það. Daniel fór í græna gallann og fannst hann mjög flottur í honum. Ég var enn með hríðar en ég var ánægð að nú værum við loksins að fara að sjá barnið okkar. Það var eins og að ský hefði dregið frá sólu, stemningin varð allt önnur. Skurðlæknirinn sagði mér að eftir sirka tuttugu mínutur væri barnið mitt komið í heiminn.

Ég hafði verið með hríðar í nánast 24 klukkutíma og var fegin þegar að mænudeyfing númer 2 fór að virka. Á meðan að ég var skorin fann ég fyrir miklum skjálfta en að öðru leyti fann ég ekkert. Það var pínu átak að ná barninu en skyndilega heyrðist í skurðlækninum “Vá risastórt barn” . Hún byrjaði strax að gráta og ég varð sjálf klökk við að heyra í henni. Ég hafði spurt áður hvort ég gæti fengið hana beint á bringuna eins og gert er sumstaðar í englandi en það gekk ekki eftir. Skurðlæknirinn lyfti henni aðeins upp fyrir skilrúmið svo að ég sá litlu “stóru” tásurnar hennar en svo var hún tekin frá. Skurðlæknirinn sagði að hún hefði varla getað lyft henni, hún væri svo þung. Daniel fór strax til stelpunar okkar og kom með hana til mín á meðan að það var verið að sauma mig. Hún var svo sannarlega stór og hraust, 20 merkur og 52 sentimetrar og var strax byrjuð að sjúga puttann.

Næstu tveir dagarnir á spítalanum voru mjög góðir og við fengum frábæra þjónustu og mikla aðstoð við brjóstagjöfina.

Nú eru þrjár vikur frá því að ég átti stóru og duglegu stelpuna mina. Ég er enn að fara yfir það sem gerðist þennan dag. Fæðing sem að ég hafði séð fyrir mér sem lyfjalausa og dásamlega jógafæðingu sem endaði svo í algjörri andstæðu sinni, spítalafæðing með mænudeyfingu og öllum þeim lyfjakokteilum sem fylgja slíkri aðgerð.

Ég er þakklát fyrir þessa fimm mánuði í meðgöngujóganu sem að undirbjuggu mig svo vel hugarfarslega. Ég fékk svo mörg verkfæri og þekkingu úr jóganu sem ég gat nýtt mér í þessa algjöru óvissuferð og er enn að nýta mér. Fæðing er ævintýri, óvissuferð þar sem allt getur gerst. Hún krefst hugrekkis, þekkingu, andlegs og líkamlegs undirbúnings. Þegar uppi er staðið, sé ég ekki eftir neinu, ég var vel undirbúin og með frábært stuðningslið, ljósurnar, eiginmanninn og douluna mína. Ég hef verið spurð hvort að það hefði ekki verið sniðugra að fæða á spítalanum og sleppa heimafæðingunni. Ég er mjög fegin að hafa byrjað heima með ljósunum sem ég hafði fengið að kynnast vel undanfarin mánuð. Mér fannst svo mikil virðing borin fyrir mér og verkefninu sem ég var að takast á við, allt fékk að hafa sinn gang og fókusinn algjörlega á þessari mögnuðu stund. Ég hugsa ekki jafn hlýtt til spítalans.

Mér leið á tímapunkti eins og að ég væri kjötstykki á bekk sem að væri ófær um að ýta barninu út. Allt viðmót var mun ópersónulegra og mun meiri spenna og óöryggi í andrúmsloftinu en í lauginni með kertaljósin heima.

Maðurinn minn var orðin aukahlutur þar, doulan mín sá þó um að túlka fyrir hann það sem læknarnir voru að segja (hann er amerískur). Í einmitt þessum aðstæðum er maður sérstaklega þakklátur fyrir doulu. Maðurinn minn gat leitað til hennar og ég lika ef ég var óörugg með eitthvað af þeim ákvörðunum sem ég þurfti að taka. Ég er þó þakklát fyrir spítalann fyrir þá þjónustu sem ég gat gengið að þar. Það eru forréttindi að fæða barn á Íslandi.

Ég er búin að tala mikið um fæðinguna síðan, við manninn minn og douluna mina sérstaklega. Oft var ég mjög viðkvæm og átti erfitt með að tala um þetta án þess að brotna niður. Mér leið þó alltaf betur eftir á og ég mæli með því að tala um hlutina þótt það sé stundum erfitt, það étur mann upp að birgja þá inni. Það hefði verið auðvelt að detta í þunglyndi, aum á líkama og sál eftir mikil átök en það var svo margt jákvætt til að vega upp á móti. Heilbrigt barn sem nærðist vel og er fullkomin I alla staði. Í dag lít ég til baka á þennan dag sem eitt magnaðasta ævintýri sem ég hef lent í og ég hef lent í þeim ófáum. Samband míns og mannsins míns hefur breyst til hins betra. Nú umgöngumst við hvort annað af mun meiri ást og virðingu en við gerðum áður. Hann var svo stór þátttakandi í fæðingunni og við unnum svo vel saman. Ég þakka heimafæðingunni, heimaljósunum og doulunni minni það.

Ég efaðist eitt augnablik um hvort ég ætti að skrifa þessa sögu, fannst þetta vera enn ein dramafæðingarsagan sem að konur á meðgöngunni þurfa síst að heyra. Doulan mín og ljósurnar hvöttu mig þó til að skrifa hana. Fæðingar eru jú alls konar, mestu skiftir það viðhorf sem maður temur sér til þeirra og lærdómurinn sem maður dregur af þeim. Fæðingunni sjálfri stjórnar maður ekki en hugarfarinu getur maður stjórnað. Núna hugsa ég til fæðingarinnar með þakklæti. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að fæða og ganga með barn á íslandi, fyrir fólkið sem studdi mig í gegnum allt ferlið, fyrir stóru og heilbrigðu stelpuna mina og fyrir mina fæðingarreynslu sem er mín og er engri lík. Þegar uppi er staðið var þetta engin dramafæðing, langt því frá þetta var dagurinn sem ég gaf frá mér nýtt líf, eignaðist heilbrigða dóttur. Það getur varla verið drama.

Recent Posts

See All

Fæðingarsaga Guðrúnar Ingu

Árið 2014 eignaðist ég einstaka stúlku á afmælisdegi mömmu minnar heitinnar. Hún fékk nafnið hennar auðvitað. Sú fæðing var erfið, og þá...

Fæðing Áslaugar Emmu

My birth experience I was due for the 31st of August, a very special day as it was coincidently the birthday of my sister. So I was...

Comments


bottom of page