top of page

Gleðilega sængurlegu

Við erum talskonur þess að fólk skipuleggi og ræði sængurleguna fyrir fæðingu barns.


Ekki til að vera búin að ákveða allt og hafa meitlað í stein heldur til að hafa gert rými í huga sér til að sjá  fyrir sér hvernig aðstæður gætu verið og hvernig við gætum mögulega viljað hafa hlutina.


Sængurlegan er mikilvægur og krefjandi tími en oft mjög vanmetinn tími sem við búum svo að það sem eftir er. Flest erum við ótrúlega hrá og viðkvæm og allt er svo nýtt þarna fyrstu vikurnar.


Eitt af því sem við gerum er að hjálpa fólki að skipuleggja sængurleguna sína. Hjálpa fólki að sjá fyrir sér hvernig það vill verja fyrstu klukkustundunum og fyrstu vikunum. Stundum er sagt að fyrstu fjörtíu dagarnir móti næstu 40 árin.


1. Hvíld er gríðarlega mikilvæg og ætti að vera sett í forgang. Hvíld fyrir báða foreldra / aðalumönnunaraðila hefur áhrif á allt annað. Flest erum við orkuminni en við eigum að okkur að vera fyrstu dagana og vikurnar eftir fæðingu. Hvíld er oft vanmetin og sett of aftarlega. Það er líklega lenska að fólk komið á ról frekar snemma og í mikla virkni en það er allt erfiðara þegar við erum þreytt. 

Ró og hvíld er lykilþáttur í bata og endurheimtarferlinu og á sama tíma og það er mikilvægt er erfitt að setja það í forgang.


2. Næring fleytir okkur langt. Það getur verið gott að vera búin að undirbúa nokkrar næringarríkar máltíðir fyrir fæðinguna og búta niður passlegar máltíðir svo það sé auðvelt að taka það fram og hafa í matinn. Ekki verra að fá aðstoð frá fjölskyldu eða doulu við að fá næringarríkan mat heim.

Hér eru þrjár hugmyndir að máltíðum til að setja í frysti er t.d. lasagna, taco (kjúklinga) súpa og kássa og hrísgrjón.

Ekki gleyma hvað það er dásamlegt að hafa niðurskorna ferska ávexti við hendina.


3. Heimsóknir

Það er gott að vera búin að ræða vel fyrir fæðingu hverjir koma í heimsókn eftir fæðingu og hverja við viljum hafa í kringum okkur fyrstu dagana eftir fæðingu. Það er ekki síður gott að uppfæra það eftir fæðingu hvort að plönin sem gerð voru fyrir fæðingu séu enn eins og við viljum hafa það.

Flestum finnst flókið að setja mörk á fólkið sitt eftir á og flókið að hugsa það eftir að barnið er fætt hvernig maður vill hafa hlutina og því er samtal fyrir fram góð hugmynd:


Hverja viljum við hafa mikið í kringum okkur fyrstu dagana?

Hvernig viljum við stýra því að fá fólk í heimsókn?


Þegar maki er til staðar er gott að maki sjái um að stýra málunum og vera rödd heimilisins og best er ef fólk treystir sér til að vera búin að nefna hvernig það haldi að það sjái fyrir sér hlutina eftir fæðingu. 

,,Við vorum búin að sjá fyrir okkur að taka ekki á móti gestum fyrstu 10 dagana"

,,Okkur þætti vænt um ef þið kæmuð daglega til okkar en ekki bjóða öðrum með"


Eftir fæðingu er gott að gefa sér tíma til að meta hlutina og vera ekki í óðagoti að taka á móti einhverjum. Ef einhver stingur upp á því að koma er gott að segja eitthvað á þá leið:

,,má ég taka þetta upp hérna heima og heyra aftur í þér?" og gefa sér svo tíma til að finna hvað er best. Vera svo óhrædd við að segja hvenær, miðað við stöðuna gæti verið góður tími. Oft er auðveldara að setja mörk með einhverri framtíðarsýn.

,,eins og staðan er núna viljum við aðeins fá tíma til að vera í næði en við höldum að það geti verið gott að fá þig og ykkur í næstu viku"


Stundum kemur togstreita milli parsins og fjölskyldumeðlima, oft vill parið fá annan legginn í heimsókn en ekki hinn legginn. Báðir foreldrar eru að eignast barn, bæði sett amma og afa eru jafnskyld barninu en þetta getur verið mjög viðkvæmt. 

Fyrir móðurina sem er mjög hrá og viðkvæm fyrstu dagana getur verið erfitt að taka á móti fólki nema sínu allra kærasta fólki. 

Í slíkum aðstæðum er samtalið enn á ný það allra mikilvægasta sem við eigum að setja orð á líðan okkar, útskýra hana og hafa skýrt hvað það er.

 ,,Ég er viðkvæm fyrir því að taka á móti þínu fólki núna þegar ég er að jafna mig líkamlega eftir fæðinguna en það endurspeglar ekki neikvætt viðhorf mitt eða hvernig ég vil að barnið okkar umgangist foreldra þína heldur hefur það að gera með hvernig orku ég hef til að taka á móti fólki núna"


4. Dagsbirta

Ekki gleyma að fá dagsbirtu alla daga óháð því hvenær árs barnið fæðist, tvær mínútur úti á tröppunum er nóg og þarf ekki að raska hvíld eða næði en dagsbirta gefur okkur stundum samhengi á hlutina.



25 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page