top of page

Að skrifa um fæðingarreynsluna sína



Við, Guðrún og Soffía, vorum í hlaðvarpsþættinum Virðing í uppeldi og ræddum hvernig fæðingarreynslan hefur mótandi áhrif og hér eru nokkrir punktar um hvernig hægt er að skrifa um fæðingarreynsluna sína. Höfum í huga, ekkert er rétt eða rangt eða betri leið eða verri. Það er fyrir flesta gott að skrifa um reynslu sína og lesa yfir og stundum er gott að bæta við og laga.


Að skrifa sig frá fæðingunni sinni

Gefðu þér góðan tíma í að vinna með fæðingarsöguna þína og prófaðu þig áfram í þessu ferli, sumir sökkva sér alveg ofan í þetta, aðrir gefa sér nokkra daga eða jafnvel vikur til að fara í gegnum ferlið. Það er mjög áhrifarík vinna að fara í gegnum allt ferlið ítarlega en mundu að horfa inn á við og finna hvernig þér líður og vertu óhræddur við að hætta eða breyta plönum ef þú upplifir að það sé það sem þurfi að gera.

Fyrsta skrefið er að skrifa fæðingarsöguna alveg út frá hjartanu, eins ítarlega og maður kærir sig um. Skrifaðu allt sem kemur upp í hugann án þess að sía það of mikið. Skrifaðu um upplifunina, tilfinningarnar sem þú fannst og atburðunum út frá sjálfri þér. Þú getur skrifað í samfelldum texta eða bara sett niður punkta til að minna þig á.

Hafðu fæðingarsöguna eins ítarlega og þú kærir þig um, skráðu allt niður sem kemur í hugann og mundu að ekkert er of stórt eða of lítið til að rata á blað. Allar tilfinningar eru líka leyfðar. Flesti foreldrar fara í gegnum allan tilfinningaskalann í fæðingum sínum, gefðu tilfinningum þínum tóm.


Þegar fæðingarsagan er komin á blað er gott að búta hana niður og greina hana skref fyrir skref.


Gefðu þér tíma í að skrifa, sumir taka ákveðinn tíma daglega til að skrifa niður, aðrir skrifa lengur og meira.



  1. Byrjaðu á því að skrifa nákvæmlega hvernig fæðingin var hlutlægt. Hér skráir þú hvað gerðist í hvaða röð og hvernig án þess að leggja mat á eða dæma eða setja inn þína skoðun. Bara lýsing á atburðum ekki tilfinningum eða hugsunum. Settu þó inn hverjar væntingar þínar voru áður en atburðurinn átti sér stað. Hér er gott að nýta mæðraskýrsluna því þar er oft skráð hvað gerðist og í hvaða tímaröð.


  1. Skrifaðu svo um tilfinningar þínar skipulega. Hvernig leið þér í gegnum ferlið og á hverjum tímapunkti fyrir sig. Af hverju leið þér svona? Hvernig leið öðrum? Eins og maka, fjölskyldumeðlimum eða aðstoðarfólki? Af hverju leið þeim þannig? Hvernig leið þér eftir fæðinguna? Hvað kallaði fram þessar tilfinningar? Hvaða atburðir eða framkoma fólks kallaði fram þessar tilfinningar. Dæmi; ef þú upplifðir reiði, út í hvern varstu reið/ur, af hverju- hvað var sagt eða gert?


  1. Hverjar voru gjörðir þínar og viðbrögð við gjörðum annarra? Hér skrifaru hvað þú gerðir og hvaða ákvarðanir þú tókst. Voru þær í samræmi við væntingar? Hver voru viðbrögð þín við gjörðum annarra? Af hverju voru þau á þá leið? Voru ákvarðanir teknar án þín?

Ef þú skoðar væntingarnar sem þú skráðir í kafla eitt er samræmi á milli gjörða og væntinga eða greinir eitthvað á milli? Af hverju er þessi munur? Hvaða aðrir kostir voru í stöðunni? Var raunhæft að nýta aðra möguleika?


  1. Þegar þú horfir til baka í dag og hugsar um fæðinguna, hvernig líður þér? Hafa tilfinningar þínar breyst á tímabilinu? Hvernig þá? Af hverju heldur þú að þær hafi breyst svona (eða ekki breyst)? Hafa þær breytt viðhorfi þínu, samskiptum og lífi? Hefur þú komist að einhverju um þig sjálfa/n þig og/eða aðra með þessa reynslu í huga? Áttar þú þig á afhverju þér hefur liðið svona?


  1. Þegar þú hefur farið yfir fæðinguna og tilfinningar í kringum hana hvað viltu gera við reynsluna? Hefðir þú viljað breyta einhverju? Hvað hefur lærst? Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér? Af hverju? Hvað kallar á það? Getur þú á einhvern hátt nýtt þér þá reynslu sem þú býrð yfir til góðs? Hvað er hægt að gera til þess að hafa svipaðar aðstæður í framtíðinni öðruvísi?


  1. Nú þegar þú ert búin að fara í gegnum fæðingarreynsluna skref fyrir skref, hvað situr eftir og hvað stendur uppúr? Hvað annað kemur upp í hugann?



Gefðu þér tíma til að skrifa sögu þína og gefa tilfinningum og hugsunum rými. Svo er um að gera að lesa þetta fyrir einhvern og/eða geyma í nokkra daga og lesa yfir aftur og sjá hvort eitthvað hafi breyst.


Það er öflugt að deila því sem maður skrifaði niður með öðrum og ræða það sem þú hefur sett á blað. Finna einhvern sem þú treystir sem getur hlustað. Það þarf samt auðvitað ekki.



Gangi þér og ykkur vel


20 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page