Fæðing er líklega ein stærsta stund í lífi konu og upplifunin dvelur með okkur lengi. Þær eru líka allskonar og sitja mislengi í okkur. Flestar erum við þannig að við viljum tala um og deila reynslu okkar en það getur verið erfitt að tala um erfiða fæðingarreynslu því viðbrögðin eru svo misjöfn. Eftir erfiða fæðingu eru konur, vinir og ættingjar stundum eins og í lausu lofti, vita ekki alveg hvernig þeir eiga að vera eða ekki vera.
Ef fæðingin er átakamikil reyna velmeinandi ættingjar og vinir og jafnvel heilbrigðisstarfsmenn að hughreysta konu en vita ekki alveg hvernig þeir eiga að koma orðum að því. Orðasambönd og klisjur sem eru endurteknar ef kona reynir að ræða reynslu sína, stundum af góðum hug en oft líka til að þagga niður í óþægilegri umræðu.
Það tekur mismikið á en það getur verið íþyngjandi að hlusta á hughreystandi orð en upplifa alls enga huggun við að heyra þau.
Mikilvægt er að reyna að muna að hver og einn upplifir sína fæðingu á sinn hátt og hvernig aðrir upplifðu sína fæðingu hefur ekkert að gera með okkar reynslu. Gott að geta samglaðst en það er ekki alltaf hægt að samsama sig reynslunni.
Huggunarorðin eru oft á þá leið;
Þú kemur til með að gleyma sársaukanum! Jú, það er oft rétt að margar konur gleyma sársaukanum en það er mikið frekar ef kona hefur átt venjulega fæðingu. Konur sem hafa upplifað fæðingartrauma muna einmitt eftir sársaukanum og endurupplifa hann jafnvel aftur og aftur og aftur jafnvel svo mikið að þær geta ekki hugsað sér að eignast annað barn. Vissulega dofnar tilfinningin með tímanum, svona rétt eins og ef kona getur hugsað til baka og munað eftir sársauka sem fylgdi handleggsbroti að þá dofnar tilfinningin með tímanum.
Það eina sem skiptir máli er að þú eignaðist heilbrigt barn. Enn á ný, jú það er mjög ánægjulegt og mikilvægt að eignast heilbrigt barn en það er alls ekki það eina sem skiptir máli. Þó barnið sé heilbrigt er það ekki sama sem merki þess að konu líði vel, að hún og hennar upplifun skipti ekki neinu máli og það sé óþarfi að huga að henni bara því barnið er heilbrigt. Það skiptir miklu máli að barnið sé heilbrigt og það skiptir líka miklu máli hvernig kona upplifði fæðinguna og sjálfa sig og það skiptir máli að gefa sér tíma í að syrgja upplifunina og takast á við þær tilfinningar sem koma. Móðir og barn skipta máli, upplifun og útkoma geta verið jafnmikilvæg.
Reyndu bara að gleyma þessu. Það er erfitt, ef ekki ógjörningur, að láta sem viðburður á við barnsfæðingu hafi ekki gerst. Svo ekki sé sagt að þegar hann er erfiður og átakanlegur. Það eru allar líkur á því að kona sem hefur upplifað erfiða fæðingu hugsi mikið um fæðinguna sína, fái óþægileg flashback og endurupplifi atvik úr fæðingunni, jafnvel svo að hún nær ekki að hvílast eða slaka á. Þegar brugðist er við á þann hátt að konur eru hvattar til að gleyma atburðinum er í raun verið að biðja hana um að tala ekki um upplifunina, hún kemur varla til með að gleyma honum svo glatt. Þú ættir að hafa …(fyllið sjálf í eyðurnar- gert eitthvað annað) fætt heima, fengið verkjastillingu/ ekki fengið verkjastillingu, fætt í Reykjavík/Akranesi, farið í sund. Þú hefðir átt að …. Það getur vel verið að ef ef ef ef hefði virkað og einhver annar hefði getað komið með betri fæðingu sem hefði ekki leitt til þess að niðurstaðan var sú sem hún var eða tilfinningin sem eftir er væri önnur. Það er hinsvegar þannig að það er alveg sama hve mikið kona fær að heyra um allt sem hún hefði getað gert eða hugsar um allt sem hún hefði getað gert eða ekki gert það breytir ekki orðnum hlut og það breytir ekki tilfinningunni sem situr eftir og í öllu falli mjög ólíklegt að konu líði betur af því að fá gagnrýni eða ráð um hvernig hún hefði getað tæklað aðstæður betur. Aðstæður eru oft á þann veg akkúrat þegar kona er að takast á við þær að það er ekki hægt að fá það sem maður vildi helst eftir á. Með því að sættast við það þokast kona aðeins áfram í sáttaferlinu. Það er að sjálfsögðu hægt að nýta fyrri reynslu til að hjálpa manni í að taka ákvarðanir fyrir framtíðina en fortíðinni breytir maður ekki.
Þegar kona segir frá fæðingarreynslu sinni ætti maður ekki að reyna að breyta upplifun hennar eða gera lítið úr henni heldur bara hlusta og fá að heyra hvernig hún upplifði akkúrat þessa stóru stund og þannig kannski hjálpa pínulítið til við að plástra sárið á sálinni.
Streituröskun í kjölfar erfiðrar fæðingar er nefnilega mjög eðlileg, hún er eðlileg viðbrögð við óeðlilegum og erfiðum aðstæðum.
