Fæðing er fyrir flesta krefjandi verkefni sem kallar á alla okkar athygli. Undanfarin ár hef ég aðstoðað fólk við að undirbúa sig fyrir fæðinguna og kennt þeim nokkur einföld ráð til að takast á við fæðinguna. Tækni sem makinn getur gert í fæðingunni og gott er að hafa farið yfir áður en kallið kemur. Mig langaði að deila því með ykkur.
Mörgum konum finnst gott að láta strjúka sér og nudda í fæðingu en mörgum finnst það líka óþægilegt. Það er ekkert rétt eða rangt í þessum og alveg alger óþarfi að taka það persónulega ef nudd eða strokur eru afþakkaðar. Reynslan segir mér að í byrjun fæðingar hjálpar létt nudd og strokur og svo þegar líður á fæðinguna gagnast þéttari snerting betur og ekki í samdráttum heldur á millli.
Hönd í hönd og lófanudd Einfalt en áhrifaríkt og sýnir traust og umhyggju er að haldast í hendur og oft er mjög slakandi að nudda inn í lófann, þéttingsfast.
Þrýstingur um höfuðið Kemur oft á óvart en það að setja hendur um höfuð konu í fæðingu er yfirleitt mjög vel þegið. Önnur hendin á ennið og hin við hnakka en samt á höfðinu. Halda þéttingsfast án þess að kreista. Mörgum þykir líka gott að vefja um höfuðið á sér slæðu eða öðru svipuðu. Það er töfraráð að halda köldum þvottapoka þétt um enni konu í fæðingu.
Þriðja augað
Það veitir ótrúlega slökun að nudda með þumalfingri rólega milli augnabrúnna. Þarna við það sem oft er kallað þriðja augað.
Hjartastuðningur Mæli því að setja aðra hönd á bringuna við hjartastað og aðra á milli herðablaða og leyfa höndunum að hvíla vel við líkamann.
Fótasnerting Létt snerting á fætur getur verið hughreystandi og þægileg. Margar konur finna jarðtengingu þegar þær standa og því er oft mjög kærkomið að fá fótanudd ef kona liggur fyrir. Þegar langt er komið í fæðingu getur verið gott að halda vel um ökkla, gefur góða jarðtengingu.
Prófið ykkur endilega áfram, metið stöðuna og haldið áfram. Góð snerting getur gert kraftaverk í fæðingu.