top of page

Þegar tveir verða þrír


Ótal margt breytist við komu lítils barns inn á heimilið og parasambandið tekur nýja stefnu. Í amstri dagsins taka við bleiuskipti, matargjafir og oft svefnlausar nætur. Þá er ótalið aukinn þvottur, oft fjárhagsáhyggjur og oft breytt líkamsímynd. Minni tími fyrir hvort annað og parasambandið. Sumir taka lítið eftir breytingunum meðan aðrir sakna nándarinnar frá makanum. Það er alveg eðliegt að fókusinn breytist tímabundið og í raun nauðsynlegt að við getum lagt okkar þarfir aðeins til hliðar og annast lítið barn. Það þýðir þó ekki að maður þurfi alveg að gleyma sér og makanum þó að sambandið breytist.

Með því að muna að setjast niður og spjalla saman helst tengingin. Tala um daginn ykkar, daginn ykkar saman og svo hvernig hann var þegar þið voruð ekki saman. Snúa sér að hvort öðru og sýna áhuga og athygli. Þannig nær maður að halda sér inni í málunum hjá makanum og deila því sem maður er sjálfur að upplifa. Það er mjög mikilvægt að tala um barnið, umönnun þess og foreldrahlutverkið en ekki síður mikilvægt að tala alls ekki um það og reyna að gleyma sér í spjalli um eitthvað sem manni finnst skemmtilegt og áhugavert við að vera maður sjálfur en ekki ,,mamma barnsins“ eða ,,pabbi barnsins“.

Það getur verið góð ákvörðun að ákveða að snúa sér að makanum og ákveða að tengja, snúa sér að makanum eftir athygli, hlýjum orðum, snertingu og umhyggu. Með því að taka meðvitaða ákvörðun um að veita makanum athygli og biðja um hana er maður að tengja sig inn í sambandið aftur. Það þarf ekki að fjölyrða um hve neikvæð áhrif það hefur á parasambanið að nota hunsun, svara ekki eða sýna makanum ekki hlýju, slíkt dregur parið hægt og rólega í sundur.

Að sama skapi getur gert kraftaverk að setja í orð, litlu fallegu hlutina í hversdeginum. Dagarnir eru nefnilega fullir af stuttum fallegum stundum sem má setja í orð, orða hve vel þið annist barnið, hvernig við höldum sambandi, hvað heimilið er fallegt, hárið hressandi eða hvað það er sem vekur örlitla aðdáun í hvunndeginum. Þá má líka setja þakklæti ofarlega í umræðuna, einföld tjáning eins og ,,takk fyrir að …..“ get verið ótrúlega hvetjandi. ,,Takk fyrir að hella upp á kaffi fyrir mig“, ,,Takk fyrir að vakna með barninu í nótt“, ,,Takk fyrir að elda“.

Flest pör finna breytingar á nánd og kynlífi fyrst eftir að barn fæðist. Það tekur líkama konu mislangan tíma að jafna sig eftir fæðingu, stundum er það nokkrar vikur en getur verið margir mánuðir. Þreyta og svefnleysi eru líka þekkt fyrir að draga úr nándarlöngun og það getur verið að nýju foreldrarnir upplifi að þau þurfi ekki meiri snertingu eftir að vera í daglegri mikilli snertingu við lítið barn.

Það er ekkert rétt eða rangt í þessum málum en flestir eru sammála um að nánd og kynlíf skiptir máli svo það er gott að hafa orð á breytingunum og tjá áhuga og sýna umhyggju. Margir finna að það er ekki jafnlaus tími fyrir kynlíf og þá getur verið gott ráð að skipuleggja og taka frá tíma fyrir kynlíf. Sumum finnst það óspennandi tilhugsun en spontant getur líka þýtt að ekkert verður úr neinu og með skipulagi er hægt að búa til eftirvæntingu og spennu. Aðalmálið er að taka hlutunum með ró og prófa sig áfram.

Uppáhaldspararáðið mitt er stefnumót. Stefnumót para ættu að vera skylda amk einu sinni í mánuði. Vera saman tvö, gera eitthvað þar sem þið veitið hvort öðru athygli og njótið ykkar saman. Fyrstu mánuðina eftir að barnið fæðist er kannski ekki raunhæft að fara út úr húsi en þá má útbúa góðan mat og borða saman eftir að barnið er sofnað, setja kerti á borðið og hafa tónlist undir. Horfa saman á gamanmynd og/ eða hlæja. Rifja upp góðar stundir og passa að láta samtalið ekki snúast of mikið um reikningana heldur það sem ykkur finnst skemmtilegt og áhugavert.

Þegar fram líða stundir er hægt að fá pössun, fara saman á kaffihús, kíkja á bókasafnið eða skella sér í göngutúr eða sund. Stefnumótið þarf ekki alltaf að vera viðburðarríkt, dýrt og alsett glimmeri heldur stund sem þið njótið, saman tvö í ahyggjuleysi og notalegheitum.

Margir finna einmitt að parasambandið verður betra, dýpra og nánara eftir að börnin fæðast. Það getur bara tekið tíma að aðlagast og finna taktinn aftur og oftar en ekki þarf að gera það meðvitað.

Ástin í góðu sambandi er í raun svolítið eins og pottablóm á heimilinu, það þarf að hlúa að henni og viðhalda svo hún vaxi og dafni. Hún þolir alveg að henni sé gleymt í smá tíma og þolir skuggatímabil og smá þurrk en það þarf að vökva og gæta þess að hún fái athygli og birtu.

9 views0 comments

Comentarios


bottom of page